Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Vel heppnuð ganga frá Stórutjarnaskóla

Eftir Fréttir

Í ár var í fyrsta skipti boðið upp á Göngum saman göngu frá Stórutjarnaskóla. Vegna slæmrar veðurspár norðan heiða var ákveðið að flýta göngunni þar um einn sólarhring og því var hún í dag.Gangan gekk mjög vel, veðrið var kyrrt, sólarlítið og hiti um 12°c. Lagt var af stað kl.11 og gengið kringum hólana og tjarnirnar við skólann.

Eftir göngu var boðið upp á súpu í skólanum. Það var góð þátttaka og fólk ánægt með þennan skemmtilega viðburð.

Mæðradagsgangan á sunnudag

Eftir Fréttir

Engan bilbug er að finna á þeim vösku konum sem skipuleggja mæðradagsgöngur víða um land á sunnudaginn kl. 11. Við ætlum að bjóða náttúruöflunum birginn og fer líklega vel á því þegar málefnið sem við göngum fyrir er haft í huga.

Þó er ein skynsamleg undantekning. Vegna aðstæðna á Stórutjörnum verður gengið þar á laugardaginn kl. 11.

Allar aðrar göngur verða samkvæmt áætlun. Skipuleggjendur hafa gert ráðstafanir til að bregðast við veðrinu og við hvetjum alla sem taka þátt til að klæða af sér veðrið.

Við göllum okkur upp á sunnudaginn, gefum veðrinu langt nef og njótum hressandi útivistar fyrir mikilvægt málefni.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Tveir piltar kynntu Göngum saman í skólanum

Eftir Fréttir

Gögnum saman fer víða. Það er gaman að segja frá því að tveir piltar í 10. bekk í Lindaskóla í Kópavogi völdu sér það verkefni í þjóðfélagsfræði að segja frá styrktarfélaginu Göngum saman. Þeir heita Eiríkur Orri Agnarsson og Ísak Freyr Hilmarsson. Strákarnir útbjuggu verkefnið á Prezi.com og þar settu þeir fram ýmsan fróðleik um félagið. Meðal annars tóku þeir viðtal við formann Göngum saman, Gunnhildi Óskarsdóttur. Hægt er að sjá verkefnið þeirra hér.

Þegar Eiríkur Orri og Ísak Freyr kynntu verkefnið í skólanum klæddust þeir nýju bolunum sem Mundi hannaði.

Göngum saman um allt land á mæðradaginn 13. maí kl. 11

Eftir Fréttir

Á mæðradaginn verður styrktarganga Göngum saman um allt land kl. 11:00

Gengið verður á 13 stöðum hringinn í kringum landið. Nýjir staðir hafa bæst við frá í fyrra, t.d. Stórutjarnaskóli og Reykjanesbær.

Göngustaðir í ár:

  • Reykjavík – við Skautahöllina í Laugardal
  • Akranes – gengið frá sundlauginni á Jaðarsbökkum; tvær vegalendir, 3 og 5 km
  • Borgarnes – pílagrímsganga frá Borg á Mýrum að Borgarneskirkju
  • Stykkishólmur – frá sundlauginni; 5 km; frítt í sund á eftir
  • Patreksfjörður – frá íþróttahúsinu Bröttuhlíð; tvær vegalendir, 3 og 5 km
  • Ísafjörður – frá gamla sjúkrahúsinu; tvær vegalendir, 3 og 7 km
  • Akureyri – frá Lystigarðinum; tvær vegalengdir í boði
  • Stórutjarnaskóli – gengið um hólana í kringum skólann; íslensk kjötsúpu á eftir; frítt í sund
  • Egilsstaðir – frá bílastæðinu við Selskóg; frítt í sund á eftir
  • Reyðarfjörður – frá Stríðsárasafninu; frítt í sund á Eskifirði á eftir
  • Höfn – frá sundlauginni; tvær vegalendir, 3 og 7 km; frítt í sund á eftir
  • Hveragerði – frá sundlauginni í Laugaskarði; frítt í sund á eftir
  • Reykjanesbær – frá Íþróttaakademíunni; tvær vegalengdir, rúmir 2 og 5 km

Frítt er í göngurnar en það verður tekið á móti frjálsum framlögum. Þá verður ýmis varningur sem framleiddur hefur verið fyrir Göngum saman til sölu á göngustöðunum, m.a. ný buff og bolir sem hönnuðurinn Mundi hannaði fyrir félagið í tilefni 5 ára afmælisins.

Göngum saman nýtur aftur í ár góðs af samstarfi við Landssamband bakarameistara sem stendur fyrir sölu á brjóstabollum í bakaríum um allt land dagana 10 – 13. maí í tengslum við mæðradaginn. Landsmenn eru hvattir til að bjóða upp á brjóstabollur með kaffinu alla mæðradagshelgina og láta þannig gott af sér leiða, brjóstanna vegna.

Gleði á kynningunni í verslun Munda

Eftir Fréttir

Það var mikil gleði og stemming í versluninni hjá Munda í gær þegar nýju bolirnir og buffin sem Mundi hannaði fyrir Göngum saman voru kynnt. Hljómsveitin Gleðisveit Lýðveldisins gladdi viðstadda með skemmtilegri tónlist og buddur sáust á lofti. Hægt verður að kaupa boli og buff í versluninni á Laugavegi 37 til 13. maí auk þess sem þau verða seld í göngum félagsins víða um land á mæðradaginn (sunnudaginn 13. maí), sjá staðsetningar í viðburðadagatalinu.

Mundi segir frá verkefninu í viðtali við Monitor sem kom út í morgun, sjá hér.

Göngum saman til Munda á Laugaveg 37 í dag

Eftir Fréttir

Hönnuðurinn Mundi hefur hannað bol og buff fyrir styrktarfélagið Göngum saman. Bolirnir og buffin verða kynnt í verslun Munda að Laugavegi 37 miðvikudaginn 2. maí milli 17 og 19. Í framhaldinu verða þeir til sölu hjá Munda og á vegum Göngum saman í viðburðum á vegum félagsins.

Mundi er vörumerki hönnuðarins Guðmundar Hallgrímssonar sem hann stofnaði árið 2007, þá tæplega tvítugur að aldri. Hann fékk inngöngu í hönnunardeild Listaháskóla Íslands ungur að árum og hefur þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára gamall skapað sér nafn sem hönnuður listamaður í fremstu röð og hafa verk hans vakið athygli víða um heim.

Allir velkomnir.

Mundi hannar boli og buff fyrir Göngum saman

Eftir Fréttir

Hönnuðurinn Mundi hefur hannað bol og buff fyrir Göngum saman í tilefni 5 ára afmælis félagsins. Við fögnum því að fá þessa frábæru ungu hönnuði í lið með Göngum saman. Á miðvikudaginn kemur, 2. maí, kl. 17 – 19 verða nýi bolurinn og buffið kynnt í verslun hans á Laugavegi 37 og eru allir hvattir til að mæta. Bolirnir og buffin verða síðan í sölu í búðinni í tvær vikur eða framyfir göngu Göngum saman á mæðradaginn.

Boðið verður upp á léttar veitingar og tónlist. 

Styrkþegi Göngum saman valinn ungur vísindamaður 2012 á Lsp

Eftir Fréttir

Sævar Ingþórsson, líffræðingur og doktorsnemi við HÍ sem hlaut styrk úr rannsóknasjóði Göngum saman á síðasta ári var valinn ungur vísindamaður ársins 2012 á Landspítala. Þetta var tilkynnt á uppskeruhátíð vísindastarfs á spítalanum, Vísindum á vordögum, sem hófst í gær 25. apríl 2012 með opnun veggspjaldasýningar og vísindadagskrá.

Sævar lauk B.S. prófi í líffræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands árið 2006 og meistaraprófi í líf- og læknavísindum frá læknadeild Háskóla Íslands 2008. Hann hóf doktorsnám í líf- og læknavísindum við læknadeild HÍ 2009 og starfar á Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum sem er rekin af Magnúsi Karli Magnússyni prófessor og Þórarni Guðjónssyni dósent.

Doktorsverkefni Sævars nefnist "Hlutverk sprouty próteina í stjórn EGFR boðleiða í brjóstaþekjufrumum" og er markmið þess að að rannsaka hlutverk og samskipti Sprouty-2 við EGFR týrósín kínasa viðtaka fjölskylduna í greinóttri formgerð brjóstkirtilsins og kortleggja áhrif yfirtjáningar og sívirkrar tjáningar viðtakanna í framþróun æxlisvaxtar í brjóstkirtli. Í rannsóknunum er notast við þrívíð frumuræktunarlíkön og frumulínur, bæði úr heilbrigðum vef og krabbameinsvef, ásamt frumulínu með stofnfrumueiginleika.

Göngum saman óskar Sævari til hamingju með viðurkenninguna og þennan góða árangur.

Hér sést Sævar Ingþórsson, ungur vísindamaður Landspítala-Háskólasjúkrahúss árið 2012 á kynningu Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum í febrúar s.l. í fræðslufundaröð Göngum saman "Vísindi á laugardegi – Göngum saman í leit að lækningu á brjóstakrabbameini".

Frábær stemnig á gæðastund á Akureyri

Eftir Fréttir

Frábær stemning var á gæðastund Göngum saman sem haldin var í Keramikgalleríi Margrétar Jónsdóttur á Akureyri í dag. Hlín Reykdal hönnuður og Gunnhildur Óskarsdóttir formaður kynntu og seldu armböndin fallegu sem Hlín hannaði fyrir Göngum saman. Göngum saman konur á Akureyri undirbjuggu þessa góðu stund þar sem boðið var upp á veitingar og tónlist. Það er skemmst frá því að segja að armböndin runnu út og eru sama sem uppseld.

Innilegar þakkir til allra sem komu að þessari skemmtilegu stund og sérstakar þakkir til Margrétar fyrir að bjóða okkur til sín.