Skip to main content
All Posts By

a8

Mæðradagsganga Göngum saman um allt land

Eftir Fréttir

Frábær stemming og skemmtilegar göngum um allt land. Yfir þúsund manns gengu á 13 stöðum í morgun og einn staður tók forskot á sæluna í gær þannig að það var gengið saman á 14 stöðum í ár.

Gengið var í fyrsta skipti í Reykjanesbæ og bæjarbúar tóku vel á móti Göngum saman og næstum 300 manns gengu í fínu veðri, sól og vindi en að vísu fekk göngufólk ókeypis salt-skrúbb er þau gengu meðfram sjávarsíðunni! Og á Egilsstöðum gengu um 40 manns í rigningu og strekkings vindi og snjókorn farin að falla í í lok göngu. Þrátt fyrir veðrið var góð stemming og fólk hafði gaman að. Það er ánægjulegt hve vel tókst til alls staðar þrátt fyrir að veðrið var víða erfitt og vitað er að fólk sem ætlaði í gönguna á Akureyri frá Dalvík komst ekkert. Þrátt fyrir leiðindarveður fyrir norðan tókst að fá um 100 manns út í veðrið að ganga á Akureyri.

Það voru einnig margir eða um 600 manns sem lögðu leið sína í Laugardalinn í dag þrátt fyrir kul í lofti. Mikil gleði og almenn ánægja. Það var mikið að gera á söluborðinu og bolirnir og buffin hans Munda slógu í gegn.

Göngum saman þakkar öllum sem tóku þátt í Mæðradagsgöngunni um allt land og öllu því frábæra fólki sem gerði þær að veruleika en það liggur mikil sjálfboðavinna að baki þessum vellukkuðu göngum. TAKK!

Frá Laugardalnum vinstra megin og Egilsstöðum hægra megin.

Fleiri myndir verða settar inn í myndaalbúm á heimasíðunni.

Siglufjörður bætist við

Eftir Fréttir

Það er ánægjulegt hversu mikill áhugi er á Mæðradagsgöngu Göngum saman um allt land. Nýr staður hefur bæst við.

Göngum saman hefur fengið góðan stuðning frá Siglufirði. Þar hefur Ásdís Kjartansdóttir fengið nokkrar góðar konur í lið með sér og þær ætla að ganga saman á Mæðradaginn. Lagt verður af stað frá Torginu kl. 11 og mun veður ráða för. Eftir gönguna ætla þær svo að fá sér súpu hjá Ásgeiri á Torginu.

Sjá nánar á www.sksiglo.is

Vel heppnuð ganga frá Stórutjarnaskóla

Eftir Fréttir

Í ár var í fyrsta skipti boðið upp á Göngum saman göngu frá Stórutjarnaskóla. Vegna slæmrar veðurspár norðan heiða var ákveðið að flýta göngunni þar um einn sólarhring og því var hún í dag.Gangan gekk mjög vel, veðrið var kyrrt, sólarlítið og hiti um 12°c. Lagt var af stað kl.11 og gengið kringum hólana og tjarnirnar við skólann.

Eftir göngu var boðið upp á súpu í skólanum. Það var góð þátttaka og fólk ánægt með þennan skemmtilega viðburð.

Mæðradagsgangan á sunnudag

Eftir Fréttir

Engan bilbug er að finna á þeim vösku konum sem skipuleggja mæðradagsgöngur víða um land á sunnudaginn kl. 11. Við ætlum að bjóða náttúruöflunum birginn og fer líklega vel á því þegar málefnið sem við göngum fyrir er haft í huga.

Þó er ein skynsamleg undantekning. Vegna aðstæðna á Stórutjörnum verður gengið þar á laugardaginn kl. 11.

Allar aðrar göngur verða samkvæmt áætlun. Skipuleggjendur hafa gert ráðstafanir til að bregðast við veðrinu og við hvetjum alla sem taka þátt til að klæða af sér veðrið.

Við göllum okkur upp á sunnudaginn, gefum veðrinu langt nef og njótum hressandi útivistar fyrir mikilvægt málefni.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Tveir piltar kynntu Göngum saman í skólanum

Eftir Fréttir

Gögnum saman fer víða. Það er gaman að segja frá því að tveir piltar í 10. bekk í Lindaskóla í Kópavogi völdu sér það verkefni í þjóðfélagsfræði að segja frá styrktarfélaginu Göngum saman. Þeir heita Eiríkur Orri Agnarsson og Ísak Freyr Hilmarsson. Strákarnir útbjuggu verkefnið á Prezi.com og þar settu þeir fram ýmsan fróðleik um félagið. Meðal annars tóku þeir viðtal við formann Göngum saman, Gunnhildi Óskarsdóttur. Hægt er að sjá verkefnið þeirra hér.

Þegar Eiríkur Orri og Ísak Freyr kynntu verkefnið í skólanum klæddust þeir nýju bolunum sem Mundi hannaði.

Göngum saman um allt land á mæðradaginn 13. maí kl. 11

Eftir Fréttir

Á mæðradaginn verður styrktarganga Göngum saman um allt land kl. 11:00

Gengið verður á 13 stöðum hringinn í kringum landið. Nýjir staðir hafa bæst við frá í fyrra, t.d. Stórutjarnaskóli og Reykjanesbær.

Göngustaðir í ár:

  • Reykjavík – við Skautahöllina í Laugardal
  • Akranes – gengið frá sundlauginni á Jaðarsbökkum; tvær vegalendir, 3 og 5 km
  • Borgarnes – pílagrímsganga frá Borg á Mýrum að Borgarneskirkju
  • Stykkishólmur – frá sundlauginni; 5 km; frítt í sund á eftir
  • Patreksfjörður – frá íþróttahúsinu Bröttuhlíð; tvær vegalendir, 3 og 5 km
  • Ísafjörður – frá gamla sjúkrahúsinu; tvær vegalendir, 3 og 7 km
  • Akureyri – frá Lystigarðinum; tvær vegalengdir í boði
  • Stórutjarnaskóli – gengið um hólana í kringum skólann; íslensk kjötsúpu á eftir; frítt í sund
  • Egilsstaðir – frá bílastæðinu við Selskóg; frítt í sund á eftir
  • Reyðarfjörður – frá Stríðsárasafninu; frítt í sund á Eskifirði á eftir
  • Höfn – frá sundlauginni; tvær vegalendir, 3 og 7 km; frítt í sund á eftir
  • Hveragerði – frá sundlauginni í Laugaskarði; frítt í sund á eftir
  • Reykjanesbær – frá Íþróttaakademíunni; tvær vegalengdir, rúmir 2 og 5 km

Frítt er í göngurnar en það verður tekið á móti frjálsum framlögum. Þá verður ýmis varningur sem framleiddur hefur verið fyrir Göngum saman til sölu á göngustöðunum, m.a. ný buff og bolir sem hönnuðurinn Mundi hannaði fyrir félagið í tilefni 5 ára afmælisins.

Göngum saman nýtur aftur í ár góðs af samstarfi við Landssamband bakarameistara sem stendur fyrir sölu á brjóstabollum í bakaríum um allt land dagana 10 – 13. maí í tengslum við mæðradaginn. Landsmenn eru hvattir til að bjóða upp á brjóstabollur með kaffinu alla mæðradagshelgina og láta þannig gott af sér leiða, brjóstanna vegna.

Gleði á kynningunni í verslun Munda

Eftir Fréttir

Það var mikil gleði og stemming í versluninni hjá Munda í gær þegar nýju bolirnir og buffin sem Mundi hannaði fyrir Göngum saman voru kynnt. Hljómsveitin Gleðisveit Lýðveldisins gladdi viðstadda með skemmtilegri tónlist og buddur sáust á lofti. Hægt verður að kaupa boli og buff í versluninni á Laugavegi 37 til 13. maí auk þess sem þau verða seld í göngum félagsins víða um land á mæðradaginn (sunnudaginn 13. maí), sjá staðsetningar í viðburðadagatalinu.

Mundi segir frá verkefninu í viðtali við Monitor sem kom út í morgun, sjá hér.

Göngum saman til Munda á Laugaveg 37 í dag

Eftir Fréttir

Hönnuðurinn Mundi hefur hannað bol og buff fyrir styrktarfélagið Göngum saman. Bolirnir og buffin verða kynnt í verslun Munda að Laugavegi 37 miðvikudaginn 2. maí milli 17 og 19. Í framhaldinu verða þeir til sölu hjá Munda og á vegum Göngum saman í viðburðum á vegum félagsins.

Mundi er vörumerki hönnuðarins Guðmundar Hallgrímssonar sem hann stofnaði árið 2007, þá tæplega tvítugur að aldri. Hann fékk inngöngu í hönnunardeild Listaháskóla Íslands ungur að árum og hefur þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára gamall skapað sér nafn sem hönnuður listamaður í fremstu röð og hafa verk hans vakið athygli víða um heim.

Allir velkomnir.

Mundi hannar boli og buff fyrir Göngum saman

Eftir Fréttir

Hönnuðurinn Mundi hefur hannað bol og buff fyrir Göngum saman í tilefni 5 ára afmælis félagsins. Við fögnum því að fá þessa frábæru ungu hönnuði í lið með Göngum saman. Á miðvikudaginn kemur, 2. maí, kl. 17 – 19 verða nýi bolurinn og buffið kynnt í verslun hans á Laugavegi 37 og eru allir hvattir til að mæta. Bolirnir og buffin verða síðan í sölu í búðinni í tvær vikur eða framyfir göngu Göngum saman á mæðradaginn.

Boðið verður upp á léttar veitingar og tónlist.