Skip to main content
All Posts By

a8

Mikill kraftur í starfi Göngum saman

Eftir Fréttir

Aðalfundur Göngum saman í gærkvöldi var vel sóttur. Fundarstjóri var Sæmundur Runólfsson og fundarritari Heiðrún Kristjánsdóttir. Formaður félagsins Gunnhildur Óskarsdóttir var endurkjörin með lófaklappi. Sú endurnýjun varð í stjórn félagsins að Helga Haraldsdóttir kom inn i stað Rannveigar Rúnarsdóttur og Ragnhildur Zoëga var kosin í varastjórn. Á aðalfundinum kom vel fram hversu mikið óeigingjarnt starf félagsmenn hafa unnið fyrir félagið á árinu og þakkaði formaðurinn fyrir það.

Eftir venjuleg aðalfundarstörf var fræðslumyndin Göngum saman og brjóstakrabbamein sýnd við góðar undirtektir. Myndina gerðu 10. bekkingar í Háteigsskóla í fyrra og var gerð henna hluti af verkefni í góðgerðaviku sem unnið var í samstarfi við Félagsmiðstöðina 105 en þau ákváðu að safna fé til styrktar Göngum saman. Í myndinni fjalla krakkarnir um brjóstakrabbamein og stofnun styrktarfélagsins Göngum saman. Þau byggja myndina upp á viðtölum, m.a. við Gunnhildi Óskarsdóttur formann félagsins og Friðbjörn Sigurðsson krabbameinslækni.

Aðalfundur Göngum saman mánudaginn 15. mars

Eftir Fréttir

Aðalfundur Göngum saman verður haldinn mánudaginn 15. mars 2010 kl. 20:00
í sal Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins Skógarhlíð 8, Reykjavík.
 
Dagskrá
1. Skýrsla stjórnar.
2. Reikningar félagsins kynntir og bornir upp til samþykktar.
3. Kosning stjórnar og varastjórnar.
4. Kosning skoðunarmanna reikninga.
5. Ákvörðun árgjalds.
6. Önnur mál.
 
Allir félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

Eftir aðalfundinn verður sýnd heimildamynd um Göngum saman og brjóstakrabbamein sem 10. bekkingar í Háteigsskóla veturinn 2008-2009 gerðu.

Fjölmennum,
stjórn Göngum saman

Vel heppnuð vasaljósaganga

Eftir Fréttir

Vasaljósaganga Göngum saman á safnanótt var einstaklega vel heppnuð enda lék veðrið við göngufólk. Gengið var frá Þjóðminjasafni og niður á Ægissíðu þar sem vasaljósin fengu að njóta sín. Göngufólk tók lagið í göngunni sem endaði í Vesturbæjarlaug sem var böðuð bleikum ljósum. Í anddyri Vesturbæjarlaugar var boðið upp á heitt súkkulaði.

Frumherji færir Göngum saman góða gjöf

Eftir Fréttir

Í dag afhenti Orri Hlöðversson forstjóri Frumherja Gunnhildi Óskarsdóttur formanni Göngum saman 500 vasaljós með merki félagsins. Ljósin sem Bros lét sérhanna fyrir Göngum saman, verða seld í Vasaljósagöngu félagsins á Safnanótt þann 12. febrúar n.k. Frumherji gefur ljósin sem seld verða á 1.000 krónur og rennur hver króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.

Orri notaði tækifærið þegar Gunnhildur var með bílinn sinn í skoðun hjá Frumherja að færa henni ljósin. Kann Göngum saman Frumherja bestu þakkir fyrir góða gjöf.

Göngum saman á Safnanótt föstudaginn 12. febr

Eftir Fréttir

Vasaljósaganga Göngum saman verður á Safnanótt 2010. Á föstudagskvöldið 12. febrúar n.k. mun gangan hefjast við Þjóðminjasafnið, gengið verður um vesturbæinn og að Vesturbæjarsundlaug sem verður opin til miðnættis fyrir þátttakendur göngunnar. Lagt verður af stað eftir síðasta viðburð í safninu (um kl. 22:15) en við hvetjum fólk til að mæta tímanlega og kíkja á safnið áður en gangan hefst. Göngum saman verður með lítil vasaljós með merki félagsins til sölu í tilefni göngunnar og rennur allur ágóðinn í styrktarsjóð félagsins.

Fjölmennum og hvetjum fólk í kringum okkur til að mæta.

Kaffifundur og fyrirlestur um hamingjuna

Eftir Fréttir

Laugardaginn 16. janúar n.k. kl. 10:30 – 12:00 býður Göngum saman félögum sínum til morgunverðarfundar í húsnæði Ljóssins, Langholtsvegi 43.

Erna Magnúsdóttir forstöðumaður mun kynna starsemi Ljóssins. Síðan verður boðið upp á morgunverð og fyrirlestur um hamingjuna sem Anna Jóna Guðmundsdóttir sálfræðingur mun halda.  

Óskað er eftir að þátttakendur greiði 1000 kr. í kaffisjóð, sjá auglýsingu í pdf skjali.

Kaffifundur.pdf

Göngum saman buffin í Afríku

Eftir Fréttir

Í byrjun desember fór Hulda Ólafsdóttir ásamt fleiri konum til Tanzaníu. Við undirbúning ferðarinnar óskaði Hulda eftir að hitta konur til að fræðast um fullorðinsfræðslu. Í ferðinni hittu þær hóp kvenna sem fyrir tæpu ári síðan höfðu stofnað með sér formlegan hóp en markmið hópsins er að konurnar styðji við hver aðra og kenna hver annarri að sauma í þeim tilgangi að selja og afla sér tekna.

Íslensku og afrísku konurnar áttu langt, fróðlegt og mjög skemmtilegt tal undir berum himni. Undir lok fundarins færðu íslensku konurnar þeim afrísku Göngum saman buff en Mímir-símenntun gaf buffin og styrkti þannig bæði Göngum saman og gladdi þennan skemmtilega hóp afrískra kvenna. Konurnar voru mjög ánægðar með gjöfina og voru ekki síst hrifnar af því að á Íslandi væru konur með svipuð markmið og þær sjálfar þ.e. að konur styðja konur þótt það sé á ólíkum sviðum.

Göngum saman þakkar Mími-símenntun fyrir stuðninginn og Huldu og stöllum hennar fyrir að koma þessu í kring. Það er ánægjulegt að sjá flottu buffin okkar á höfðum þessara flottu kvenna.

HugurAx styrkir Göngum saman

Eftir Fréttir

HugurAx (www.hugurax.is) hefur í gegnum árin styrkt góðgerðar- og líknarmálefni með ýmsum hætti. Það er trú fyrirtækisins að takmörkuðum fjármunum sé betur varið fari þeir á einn stað í stað margra og veitir HugurAx því einn styrk í lok hvers árs, í stað þess að veita marga smærri styrki yfir árið.

Í ár er það Göngum saman og sameiginleg Jólaúthlutun Reykjavíkurdeildar Rauðakrossins, hjálparstarfs kirkjunnar og mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur sem hljóta styrkinn. Gunnhuldur Óskarsdóttir formaður tók við styrknum fyrir hönd Göngum saman.

Með kaupum á Avon snyrtivörum styrkir þú göngum saman

Eftir Fréttir

Avon umboðið á Íslandi styrkir Göngum saman. Við kaup á vörum frá Avon mun renna rausnarleg upphæð af hverri sölu til Göngum saman. Munið að við kaup þarf að nefna Göngum saman. Avon hefur framleitt vandaðar snyrtivörur í yfir 120 ár. Úrvalið er mikið: húðvörur, förðunarvörur, ilmvörur o.fl. Flottar jólagjafapakningar eru á tilboði nú fyrir jól. Avon, Dalvegi 16, Kópavogi (keyrt inn við Europris og innst inn í götuna)